facebook

8 hlaupameiðsli sem enginn þorir að tala um

Viðurkenndu það bara. Ef þú hefur hlaupið um nokkurt skeið hefurðu pottþétt lent í meiðslum. Helmingur rannsókna sýna að 90% hlaupara hafa á einhverjum tímapunkti glímt við meiðsli á fyrsta þriðjungi ársins. Það er jafnvel líklegt að einhverjir hafi slasað sig bara við að lesa þessa setningu.

Pointið er að meiðsli eru hluti af hlaupunum en sum meiðsli fara leyndara en önnur. Þó að eftirfarandi listi sé ekki tæmandi er eflaust eitthvað þar sem þú kannast við en þorir ekki að tala um í dönnuðum samræðum.

Marin haka

Hvað er það? Mar á höku og neðri kjálka eftir samstuð við gólf. Sést venjulega hjá sjúklingum eftir að þeir sjá upphæð skráningargjalda í maraþonið sem þeir ætluðu í. Meðferð? Ís. Í glasi. Með viskýi.

Fyrirbyggjandi meðferð? Sama og meðferð en áður en skráningarsíðan er opnuð. Athugið að stærri hlauparar gætu þurft stærri skammt.

Blóðnasir

Hvað er það? Blæðing úr annarri eða báðum nösum eftir að hafa hlaupið á tré, ljósastaur eða nammisjálfsala á meðan hlauparinn var upptekinn við að skoða spegilmyndina af sjálfum sér í búðargluggunum.

Meðferð? Klípið þétt en varlega um nasirnar til að stöðva blæðinguna.

Fyrirbyggjandi meðferð? Óþekkt.

Klemmdur axlarvöðvi

Hvað er það? Mikill og viðvarandi sársauki í öxl eftir að hafa klappað sjálfum sér á bakið of oft og of ákaft. Algengt hjá flestum maraþonhlaupurum og þríþrautarköppum.

Meðferð? Íspokar og mikið af auðmýkt.

Fyrirbyggjandi meðferð? Gætið þess að hita vel upp í um það bil tíu mínútur áður en klappið hefst, með vægu grobbi og nokkrum léttum teygjum.

Verslunar/kaupalömun

Hvað er það? Missir vöðvaafls sem leiðir til algjörs hreyfingarleysis þegar hlaupari stendur fyrir framan vegg með hlaupaskóm í sportvörudeildinni.

Meðferð? Á endanum, mögulega eftir að þú hefur vætt buxurnar, mun afgreiðslufólk víkja sér að þér og bjóða fram aðstoð. Sértu ófær um að tala, gæti verið nauðsynlegt að færa þig yfir í aðra búð (yfirfærsla vandamáls).

Fyrirbyggjandi? Aldrei kaupa nýja skó (hahahaha!).

Læst auga

Hvað er það? Annað form lömunar sem herjar aðeins á augun svo þau festast eða frjósa horfandi beint fram. Gerist venjulega þegar hlaupari forðast of mikið og of lengi augnsamband við aðvífandi hlaupara sem gætu mögulega brosað til hans eða boðið góðan daginn.

Meðferð? Augnvöðvar ættu að slakna á nokkrum tímum eftir að hlaupi lýkur. Ef ekki, fáðu þér þá pönnukökur. Því ef þú þarft að vera með frosin augu er eins gott að fá sér bara pönnukökur.

Fyrirbyggjandi? Gjóaðu augunum til aðvífandi hlaupara öðru hverju þegar þeir þjóta hjá.

Marið sjálfstraust

Hvað er það? Mar á stolti. Getur orsakast af ýmsum þáttum, en algengast er að það gerist þegar einhver 14 ára eða sextugur fer fram úr þér. Eða einhver, á hvaða aldri sem er, klæddur eins og ballerína.

Meðferð? Sjá: Marin haka.

Fyrirbyggjandi? Æfðu betur letihaugur!

Rasskrampi

Hvað er það? Krampar í stóra rassvöðvanum og nærliggjandi vöðvum, oftast af völdum þess að viðkomandi forðast snertingu við almenningssalerni og freistar þess að gera þarfir sínar í hnébeygjustöðu af hræðslu við sýkla.

Meðferð? Labbaðu það úr þér.

Fyrirbyggjandi? Taktu sénsinn á pöddunum!

Skyndilegur og skelfilegur háþrýstingur

Hvað er það? Skyndileg blóðþrýstingshækkun, venjulega af völdum þess að hlaupa fyrir aftan einhvern sem stoppar allt í einu á punktinum til að grípa sér vatn á drykkjarstöð.

Meðferð? Láttu reiðina rjúka úr þér. Fáðu þér vatnsglas honum til samlætis á meðan.

Fyrirbyggjandi? Hlauptu með elítunni við öll tækifæri!

article added January 23, 2015

Written By: Mark Remy

http://www.runnersworldonline.com.au/8-running-injuries-one-ever-talks/